7.8.2007 | 23:50
Guð gaf mér styrkleika - það er á mína ábyrgð að nota þá
Einstaklingur sem er ekki í tengslum við styrkleika sína upplifir mikla þurrð í lífinu. Er sífelt að taka að sér verkefni sem að henta honum engann veginn og hvað gerist? Hann er að fresta hlutunum, leiðist og sjálfsmyndin er ekki upp á marga fiska. Það er eins og að enginn ljósglæta komist að í lífi okkar ef við pössum okkur ekki á því að velja okkur fag að starfa við sem að hentar okkur lífinu.
Það sem gerist þá er að við eigum auðvelt með að einbeita okkur, við höfum ánægju og gaman að því sem við erum að gera, hugmyndirnar fara að streyma og við finnum ástríðu ( neista). Styrkleikar okkar eru mikilvæg gjöf sem við verðum að gangast við og virkja þannig að það neisti frá okkur. Þá erum við farin að vera mikilvægir þegnar í samfélaginu okkar, finnum gildi vinnu okkar og verðum hamingjusöm í lífinu. Litlu hlutirnir sem við erum að vandræðast yfir verða litlir og ekki eins mikið í fólkus ef við finnum tilgang okkar í lífinu og ástríðu.
Nýlega horfði ég á þátt á Skjá 1 - Entertainment Tonight. Þar var sagt frá Geðlækni sem að hafði náð gríðarlega góðum árangri í vinnu sinni með Anorexiu sjúklinga en erfitt er að vinna með sjúkdóminn. Hann hefur náð þeim góða árangri með því að hjálpa þeim að finna ástríðu sína í lífinu. Stórkostlegt, hugsið ykkur að það þarf aðeins að finna tilgang sinn í lífinu í tengslum við styrkleika og ástríðu. Þetta virðist mjög einfalt en er það alls ekki.
Afhverju er þetta ekki eins auðvelt eins og það lítur út fyrir að vera? Við erum eflaust að glíma við hindranir sem að stoppa okkur af í lífinu. Setjum fókusinn á vinnu sem gefur af sér góð laun, starfstitil sem gefur okkur möguleika á að vaxa í virðingu, veljum vinnu eftir því hvað öðrum fannst rétt að við gerðum ( væntingar annarra), hvað mamma vildi, hvað pabbi vildi og svo frv.
Starfstitill til að vinna sér inn virðingu eða velgengini, peningar til að veita okkur þau lífsgæði sem við þörfnumst er ekki góð hugmynd. Útkoman er rembingur, hroki, vanmáttur og mjög líklega óhamingja.
Bíddu hugsa eflaust sumir. Ætlar þú bara að trúa á Guð og lukkuna? Já segi ég bara. Ég vil trúa því að ef ég hætti að fókusa á það sem ég get ekki gert og fer að rækta hæfileika mína, og vel mér starf eftir því er mjög líklegt að ég mun hljóta blessanir. Þær eru í formi gleði, hamingju, nægjusemi og nýtt gildismat fer að líta dagsins ljós.
Í viðtali mínu við Jón Gnarr í síðasta fréttabréfi ADHD samtakana kom svo klárlega í ljós að flestir voru ekki að sjá hvað Jón hafði fram að færa. Horft var á þá "staðreynd að hann féll ekki í formið". ( Guði sé lof fyrir það). Haft var á orði við hann að það yrði aldrei neitt úr honum út af öllum fíflaganginum og kjaftavaðlinum í honum. En Jón benti á það í viðtalinu að það hefði verið kolrangt. Það rættist úr honum út af þessu tvennu. Kjaftavaðli og fíflagangi. Hann sagði líka í viðtalinu að annaðhvort hefði hann haft rangt fyrir sér eða skólinn, og þar sem að hann væri manneskja þá hefði skólinn haft rangt fyrir sér. Ég hef fengið mikla blessun að fá að taka viðtal við hann og kynnast hans lífsgildum. Jón Gnarr er manneskja sem hefur náð að mastera sitt líf á stórkostlegan hátt, og er öðrum geislandi ofvirkum snillingum til fyrirmyndar. Haltu áfram að gera góða hluti Jón Gnarr.
Ég hitti mann í dag sem að líklega að hans mati hefur verið með ADHD einkenni þegar hann var lítill. Mikill fjörkálfur og hress. Mamma hans náði að vinna mikið með hann bara með því að gefa honum rými til að virkja sjálfan sig í tónlistinni. Hann er líka í dag stórkostlegur tónlistarmaður með miklar náðargjafir. Það eina sem þurfti voru góðir foreldrar sem kunna að hlusta og virkja barnið sitt.
Snúum okkur að okkar þætti, þar eða að segja foreldrum, yfirmönnum, vinum, mökum og þeirra sem vinna með fólki. Við getum skipt sköpum í lífi fólks í kringum okkur ef við getum bent þeim á styrkleika þeirra og hjálpað þeim að virkja þá. Hættum að stuðla að meðalmennsku með því að láta fólk hafa jafnvægi á öllum sviðum. Fyrirtæki eru að eyða gríðarlegum fjármunum í að mennta starfsfólk sitt á þeim stöðum sem þeir eru slakir. Sendið þá frekar á námskeið þar sem að starfsfólk ykkar fær að virkja styrkleika sína. Ég er viss um að það sé lögmál í gangi hér í heimi þar sem að hægt er að leita jafnvægis með því að leita annað. Ég nota oft dæmi úr mínu eigin lífi. Ég fyrir mitt litla líf þoli ekki og á erfitt með að pressa buxur. Mamma mín er reyndar góð í því. Ég er góð aftur á móti í því að lita og plokka augabrúnir ( er ekki að óska eftir pöntunum þó síður sé) svo við höfum samið um verkaskiptingu. Hún pressar, ég lita og plokka.
Ég vona að þessi pistill í dag veki ykkur til umhugsunar um það hvað við erum einstök sköpun og hvað við þurfum að læra að virða, virkja og nota sköpunargáfur okkar, ekki vera að fókusa á a laga.
kv Sigríður, life coach
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.