13.6.2007 | 01:33
Menntun er máttur - afhverju verða þá sumir máttlausir í skólanum?
Ég hef verið að velta vöngum yfir skólastefnu og hvað skólinn stendur fyrir. Ég er sjálf með ADHD, á barn með ADHD og eiginmann með ADHD. Við höfum reynd skólakerfið með misjöfnum árangri. Ég lærði jú í skólanum en kom einskis vísari út í lífið sjálft varðandi það hver ég var og hvaða styrkleika ég hefði. Það tók mig langann tíma að átta mig því hvað ég er fær um að gera.
Í starfi mínu sem ADHD coach hef ég rekist á fjöldann allan af fólki sem að þekkir veikleika sína. Eftirfarandi dæmisaga úr skóla útskýrir afhverju svo er komið:
Dæmisaga um skóla
Eitt sinn fyrir langa löngu ákváðu nokkur dýr að taka sig saman og drýgja einhverja hetjudáð til þess að mæta áskorun nútímans. Þau voru sammála um að farsælasta leiðin væri að stofna skóla. Dýrin tóku upp virka námskrá sem samastóð af hlaupum, flugi, sundi og klifri. Námskráin tók yfir allar athafnir dýranna og margskonar líkamlega færni þeirra. Til þess að auðvelda umsjón með námskránni og gæta fyllsta réttlætis, þurftu öll dýrinn að leggja stund á allar námsgreinarnar og tóku ávalt samræmt próf í greinunum.
Öndin var frábær í sundi, meira að segja betri en sjálfur kennarinn, en hún náði naumlega fullnægjandi einkunn í flugi og var afar lélegur hlaupari. Þar sem hún hljóp of hægt var hún látin sleppa sundi og æfa hlaup í staðinn í sérstökum hlaupa sérkennslutímum. Þessu var haldið til streitu þar til fætur hennar voru orðnir svo sárir að hún átti erfitt með að synda og varð því aðeins meðalnemandi í sundi í lok annar. En meðaltal var viðunandi í skólanum svo enginn kippti sér upp við það nema öndin.
Kanínan var í byrjun skólagöngunnar best í hlaupum, en fékk fljótlega taugaáfall sökum mikils álags við að bæta sig í sundi. Kanínur og sund eiga illa saman.
Íkorninn var frábær í klifri þar til hann smám saman missti sjálfstraustið vegna flugtímanna. Kennarinn vildi nefnilega að hann hæfi sig á loft frá jörðu í stað þess að stökkva af trjákrónunum og niður til jarðar. Hann fékk líka vöðvakrampa af of mikilli áreynslu. Í einkunn fékk hann síðan C í klifri og D í hlaupum.
Örninn var vandræðafugl. Reynt var að aga hann en með engum árangri. Í klifurtímum var hann fyrstur allra að komast efst upp í tréð, en þrjóskaðist við að nota sína eigin aðferð til að komast þangað. Hann neitaði algjörlega að nota þá aðferð sem ætlast var til af skólanum og lenti útí kuldanum.
Í lok skólaársins var það svo kamelljón sem synti allvel og gat líka hlaupið, klifrað og flogið dálítið sem fékk hæstu meðaleinkunn og dúxaði þar með í skólanum.
Þetta er merkileg saga og fær hún mann til að hugsa. Ég hef þurft að leggja til hliðar margar hugmyndir sem að hafa ekki þjónað mér vel í gegnum tíðina. Ein af hugmyndum sem ég hef verið að leiðrétta hjá mér er hver ég er ekki, og að það er í lagi að vera ekki fullkominn.
Ég nota æðruleysis bænina til að sætta mig við sjálfa mig:
Guð gefðu mér æðruleysi
til að sætta mig við þá manneskju sem ég er,
kjark til að viðurkenna hver ég er ekki
og vit til að greina þar á milli
Flokkur: Menning og listir | Breytt 15.6.2007 kl. 15:42 | Facebook
Athugasemdir
Takk innilega fyrir frábært blogg... ég hef verið blessuð að lesa.
Þessi saga er hreint yndisleg og ég sé að ég get notað hana í mínu starfi og í mínu lífi :) því þessi saga blessar.
Ég tek mér það bessaleyfi að fá að bera þessa sögu áfram.
Takk fyrir að vera hvatning fyrir mig
Guð er góður.
Díana (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 03:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.